Menntun

Skólabærinn stendur undir nafni

til baka á forsíðu

Á Akureyri eru tveir framhaldsskólar, myndlistarskóli og háskóli sem fæst sveitarfélög geta státað af. Akureyri er enda í 1. sæti þegar spurt er um námsmöguleika á framhalds- og háskólastigi í búsetukönnun landshlutanna. Hátt í 90% foreldra grunnskólabarna eru ánægð með samvinnu skóla og heimilis, aðlögun kennslunnar að þörfum barnsins og líðan barnsins í skólanum. Foreldrar leikskólabarna eru jafnvel enn jákvæðari gagnvart þjónustunni, ef marka má könnun Gallup frá 2019, og má til dæmis nefna að 95% voru ánægðir með líðan barnsins í skólanum.

Skólarnir á Akureyri þykja sterkir og menntunarstig er heilt yfir talið gott.

Leikskólar

Akureyrarbær rekur 9 leikskóla á 12 starfsstöðvum. Af þessum skólum eru 8 starfræktir á Akureyri og í Hrísey er samrekinn leik- og grunnskóli. Auk þess styrkir Akureyrarbær leikskólann Hólmasól sem er starfræktur af Hjallastefnunni ehf.

Áhersla hefur verið lögð á að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á Akureyri og voru stigin stór skref í þá átt með opnun nýs sjö deilda leikskóla haustið 2021.

Akureyrarbær er í hópi sveitarfélaga með hæst hlutfall menntaðra kennara í leikskólum samkvæmt tölum frá 2019.

Lesa meira

Grunnskólar

Á Akureyri eru sjö grunnskólar í mismunandi hverfum bæjarins en Akureyrarbær rekur einnig grunnskólann í Hrísey og sérhæfðan skóla í Skjaldarvík fyrir utan bæinn.

Að stærstum hluta eru menntaðir kennarar í öllum skólum. Árið 2019 var hlutfall fagmenntaðra kennara í grunnskólum bæjarins yfir 98% og var ráðið í allar stöður. Þar fyrir utan eru fagmenntaðir starfsmenn í flestum skólum, svo sem námsráðgjafar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar og fólk með ýmsa aðra fagmenntun.

Frístund er í boði í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar fyrir börn í 1.-4. bekk eftir skólatíma.

Lesa meira

Félagsmiðstöðvar og tómstundir

Sjö félagsmiðstöðvar eru starfræktar á Akureyri. Þær eru mikilvægur þáttur í lífi barna og unglinga og gegna því veigamikla hlutverki að sinna tómstunda- og félagsmálum utan hefðbundins skólatíma. Markhópur félagsmiðstöðvanna er unglingar í 8.-10. bekk. Einnig er í boði opið starf og klúbbastarf fyrir miðstig grunnskóla.

Skipulagt tómstundastarf hefur ótvírætt forvarnargildi þar sem starfið stuðlar að jákvæðum og þroskandi samskiptum, örvar félagsþroska og lýðræðisvitund, ásamt því að styrkja sjálfsmynd barna og unglinga. Ungmennahúsið í Rósenborg er upplýsinga og menningarmiðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára.

Fjölbreyttar íþróttir og tómstundaiðjur eru í boði á Akureyri: Hestamennska, skautar, skíði, knattspyrna, blak, badminton, tónlistarnám, leiklist, myndlist, dans og skátastarf, svo eitthvað sé nefnt. Starfrækt eru yfir 20 íþróttafélög sem bjóða upp á skipulagðar æfingar í um 40 mismunandi greinum.

Lesa meira

Framhaldsskólar

Fjölbreytt framhaldsskólanám er í boði á Akureyri, hvort sem nemendur sækjast eftir því að stunda bóklegar greinar, iðngreinar, tónlist eða myndlist. Menntaskólinn á Akureyri er gamalgróin og víðfræg menntastofnun með bekkjakerfi og Verkmenntaskólinn á Akureyri býður upp á fjölbreyttar námsbrautir.

Lesa meira

Háskóli

Háskólinn á Akureyri býður upp á vandað og yfirgripsmikið námsframboð á mörgum sviðum og laðar að nemendur af öllu landinu og víðar að, en m.a. er boðið upp á sérhæft nám í heimskautarétti og sjálfbærri framleiðslu og nýtingu sjávarauðlinda.

Sterk tengsl eru milli háskólans og atvinnulífsins í bænum. Sem dæmi má nefna sjávarútvegsfræði og nám í tölvunarfræði í samvinnu við HR þar sem nemendur hafa gert verkefni í samstarfi við fyrirtæki og fengið vinnu á Akureyri strax að námi loknu, eða jafnvel meðan á því stendur.

Lesa meira